Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 426/2017
Sjöfn Arnfinnsdóttir gegn íslenska ríkinu.
Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 28. ágúst 2017 var íslenska ríkið sýknað af kröfum sóknaraðila.
Sóknaraðili krafðist þess að fjárnám sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu yrði fellt niður. Varnaraðili, íslenska ríkið, krafðist staðfestingar á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnað hafði kröfu sóknaraðila.
Fjárnámið sem málið snýst um var gert að kröfu tollstjóra vegna ógreiddra opinberra gjalda sem ríkisskattstjóri hafði endurákvarðað hjá fyrrverandi sambýlismanni sóknaraðila. Endurákvörðun ríkisskattstjóra varðaði gjaldár þar sem sóknaraðili og fyrrverandi sambýlismaður höfðu óskað eftir samsköttun.
Sóknaraðili hélt því fram að hún hefði ekki samþykkt samsköttun á þeim árum sem um ræðir. Fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði séð alfarið um framtalsgerðina. Ennfremur byggði sóknaraðili á því að hún hefði ekki haft vitneskju um endurákvörðun ríkisskattstjóra og hafi ekki fengið að sjá neinar forsendur fyrir þeim skatti sem hún væri nú gerð ábyrg fyrir.
Varnaraðili vísaði til þess að ekki væri unnt að ráða annað en að samsköttun á umræddum árum hafi verið með vilja og vitund sóknaraðila. Við framtalsgerð og allar innskráningar á þjónustusíðu sóknaraðila hjá skattyfirvöldum hafi verið notast við kennitölu og veflykil hennar.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til að framtalsskil sóknaraðila hafi verið í andstöðu við ákvæði tekjuskattslaga um framtalsskil. Væri því gengið út frá því að framtalsskil sóknaraðila, þ.m.t. beiðni um samsköttun, hafi verið með vitund og vilja hennar.
Héraðsdómur vísaði einnig til þess að samskattað sambýlisfólk beri ábyrgð á vangoldnum sköttun hvors annars sbr. 1. mgr. 116. gr. tekjuskattslaga. Regla laganna sé afdráttarlaus og samkvæmt því beri sóknaraðili ábyrgð á vangoldnum sköttum fyrrum sambýlismanns.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samsköttunin hafi á sínum tíma ekki getað farið fram hjá sóknaraðila enda hafi verið tiltekið í álagningarseðlum hennar 2007 og 2008 að skuldajafnað hafi verið frá maka inneign á staðgreiðslu opinberra gjalda. Hinn kærði úrskurður var með þessum orðum og vísan til forsendna staðfestur.