Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 217/2015

16.11.2015

Ingimundur hf. gegn íslenska ríkinu.

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. febrúar 2015 og sýknaði þar með íslenska ríkið af kröfum áfrýjanda.

Í málinu var deilt um hvernig fara bæri með ráðstöfun skips og aflaheimilda í skattalegu tilliti.  Áfrýjanda var skipt upp á þann hátt að skipið Helga RE 49, veiðarfæri þess og veiðiheimildir komu í hlut Fjarðareyjar ehf. og voru eignarhlutföll hluthafa þau sömu og í áfrýjanda.  Fjarðarey ehf. var stofnað í lok júní 2005.  Skipting áfrýjanda var tekin fyrir á hluthafafundi og samþykkt í september 2005.  Í maí 2005 hafði aftur á móti allt hlutafé í Fjarðarey verið selt Skinney-Þinganesi ehf. og Ketillaug ehf.  Í þeim kaupsamningi kom fram að félagið væri óskráð einkahlutafélag sem yrði skráð við skiptingu áfrýjanda.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skipting áfrýjanda hefði fyrst tekið gildi þegar hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hefði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti.  Þrátt fyrir að hluthafar í áfrýjanda hefðu fengið hlutabréf í Fjarðarey ehf. við stofnun þess hefði áfrýjanda ekki verið skipt að lögum fyrr en eftir að þeir höfðu afsalað bréfunum til annarra.  Af þeirri ástæðu hefði ekki verið fullnægt því frumskilyrði sem kemur fram í 1. mgr. 52. gr. tekjuskattslaga um að hluthafar í félagi sem skipt er fái eingöngu hlutabréf í félögum sem við tækju sem gagngjald fyrir hlutafé í hinu skipta félagi.  Skattyfirvöldum var því rétt að ákveða að kaupverð samkvæmt samningnum hefði átt að vera fært til tekna hjá áfrýjanda.  Þá var talið að framtalsgögn áfrýjanda hefðu ekki gefið tilefni til þess að endurákvarða opinber gjöld hans nema að undangenginni áskorun um að láta í té skriflegar skýringar og viðeigandi gögn.  Samkvæmt því höfðu skattyfirvöld sex ára frest til endurákvörðunar opinberra gjalda en ekki tveggja ára líkt og áfrýjandi hélt fram.

Hlekkur á dóminn:
http://haestirettur.is/domar?nr=10779

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum